Starfsfólk

Egill Þorsteinsson, kírópraktor og Agnes Matthíasdóttir, móttökuritari, eru samrímd hjón sem reka Kírópraktík saman, ásamt Donnel Bernard Eddy, kírópraktor. Þau telja að sú staðreynd að þau starfa saman sem hjón, geri þeim sem best kleift að vinna á persónulegan máta að sameiginlegum og uppbyggilegum markmiðum skjólstæðinga sinna. 

 

Egill Þorsteinsson, kírópraktor:

Egill Þorsteinsson fæddist í Reykjavík þann 7. október, 1968. Foreldrar hans eru Þorsteinn frá Hamri, skáld og Guðrún Svava Svavarsdóttir, myndlistakona og fótaaðgerðafæðingur. Hann er giftur Agnesi Matthíasdóttur, móttökuritara. Saman eiga þau tvö börn, Ástgeir, 12 ára og Guðrúnu Svövu, 11 ára. Fyrir á Agnes eina dóttur, Sólveigu Eir Jóhannsdóttur, 22 ára.

Egill ákvað að verða kírópraktor eftir að hafa átt í erfiðum og langvarandi íþróttameiðslum sem unglingur. Sú reynsla að fara á milli margra ólíkra meðferðaraðila árum saman án þess að öðlast bata hafði mikil áhrif á hann og varð til þess að hann tók að grandskoða hin ólíku meðferðarfög og grundvöll þann sem þau byggðu á. Kírópraktíkin heillaði hann mest vegna þess að hún er grundvölluð á óumbreytanlegum lögmálum og stefnir að göfugu takmarki sem beinist ekki eingöngu að því að breyta sjúkdómseinkennum til hins betra, heldur að því að bæta alla heilsu fólks og líf með því að fjarlægja taugapressu sem er í eðli sínu neikvæð tilveru mannsins.

Egill lærði kírópraktík í Sherman College of Chiropractic, sem er í Spartanburg í Suður-Karólínu fylki í Bandaríkjunum þar sem hann bjó í fimm ár. Hann var annar stofnenda Gonstead námsklúbbs innan skólans. Klúbburinn starfar hörðum höndum að því að aðstoða nemendur við að læra og ná tökum á Gonstead aðferðinni, sem af mörgum er talin erfiðasta en um leið áhrifaríkasta aðferð í faginu. Egill varð fljótlega varaforsteti klúbbsins og síðar forseti. Hann öðlaðist dýrmæta reynslu á þessum árum. Stór hluti nemenda skólans kom reglulega á fundi og sá Egill að miklu leyti um kennsluna sem ýmist fór fram í húsnæði klúbbsins eða í skólanum. Hann sá að miklu leyti um framkvæmdir og rekstur klúbbsins og algengt var að hann kenndi tólf til fimmtán klukkustundir á viku, með náminu. Margir af virtustu Gonstead kírópraktorum heims komu og héldu kennslunámskeið fyrir klúbbinn á þessum árum. Þessi þekking og reynsla nýtist Agli vel í starfi hans á hverjum degi. Hann útskrifaðist þann 20. desember, 1997 og hefur starfað síðan 22. apríl, 1998, hér á Íslandi. Egill fer reglulega erlendis til þess að bæta við menntun sína.

 

Donnel Bernard Eddy, kírópraktor:

Donnel Bernard Eddy er bandarískur kírópraktor með yfir fimmtán ára starfsreynslu. Don og Egill gengu saman í kírópraktíkskóla í Bandaríkjunum. Þegar þeir voru í skólanum lærðu þeir, unnu og kenndu saman. Eftir útskrift hélt Egill til Íslands og opnaði Kírópraktík. Don varð eftir í Bandaríkjunum og starfrækti Eddy Chiropractic, með bækistöðvar í Vermont og New York fylki.

Don fæddist þann 15. desember, 1952, í smábæ í West Virginía fylki og ólst upp á strjálbýlu svæði. Faðir hans, Bernard, var smiður. hann ræktaði allt grænmeti sem fjölskyldan nærðist á og gat gert við allt á milli himins og jarðar, allt frá saumavélum til bíla. Móðir hans, Ruth, var saumakona og húsmóðir. Hún var höfuð fjölskyldunnar, sú sem allir treystu á. Uppvaxtarárum sínum eyddi Don utandyra við ýmsar íþróttir og leiki í skóginum. Hann lærði einnig að gera við bíla, rækta grænmeti og smíða hluti af ýmsu tagi. Hann öðlaðist djúpstæðan áhuga á því hvernig hlutir virkuðu og öllu sem tengdist tónlist.

Kírópraktík var umbreyting á starfsferli Dons. Í tuttugu ár var Don atvinnutónlistarmaður og skemmtikraftur. Hann kom fram á hinum ýmsu stöðum á austurströndinni, aðallega á skíðasvæðum og sumarleyfastöðum við baðstrendur. Eftir að hafa slasað sig oft við hljóðfæraburð og skíðaiðkun var Don orðinn þjáður af krónískum bakverkjum og verkjum í hálsi. Þessu ástandi fylgdu stanslausir höfuðverkir, dofi fram í fingur og svefnleysi. Eftir margra ára þjáningar stakk vinur hans upp á því að Don færi til kírópraktors. Hann hafði sínar efasemdir, en hafði frá æsku þá trú að lyf væru ekki endilega alltaf svarið við heilsuleysi. Eftir tveggja mánaða meðhöndlun hjá kírópraktor voru öll sjúkdómseinkenni Dons horfin og hann hafði gert sér grein fyrir því að kírópraktík snýst um miklu meira en sjúkdómseinkenni. Hann lærði að liðir sem missa stöðu sína, bólgna og setja pressu á taugarætur, geta truflaö starfsemi taugakerfisins og samskiptin á milli heilans og líffærakerfa líkamans.

Don hefur umfangsmikla menntun. Hann hefur Bachelor gráðu í tónlistarfræðum og tónlistarsköpun frá West Liberty University í West Virginia Fylki. Þessu fylgdi hann svo eftir með eins árs framhaldsgráðu í tónlistarfræðum frá West Virginia University. Eftir að Don ákvað að fara í kírópraktík skóla, fór hann í eins árs nám í raungreinum af ýmsu tagi sem ásamt Bachelor gráðunni uppfyllti námskröfur til þess að hefja nám í Sherman College of Chiropractic, í Spartanburg, í Suður Karólínu fylki. Þar var hann í fullu námi frá árinu 1994 þangað til hann útskrifaðist með námsgráðuna Doctor of Chiropractic, þann 27. september, 1997.

Á meðan á náminu stóð átti Don stóran þátt þróun og uppbyggingu Gonstead námsklúbbsins. Hann eyddi að meðaltali tólf til fimmtán klukkustundum á viku utan námstímans og annarri hverri helgi í að nema fræðin af mörgum af bestu kírópraktorum heims. Hann kenndi mörgum nemendum sem í dag eru færir kírópraktorar, Gonstead fræðin. Don var varaforseti klúbbsins á árinu 1997 og vann mikið starf innan klúbbsins við hlið Egils, sem var forseti á þessum tíma.

Á árinu 2011 stakk Egill upp á því við Don, að íhuga að flytjast til Íslands og starfa með honum hjá Kírópraktík. Þann 7. mars, 2012 kom Don til Reykjavíkur og tók að sinna skjólstæðingum sínum. Don fer reglulega erlendis til þess að bæta við menntun sína. Don er í sambúð með Carole Jane McKibben. Don á tvo uppkomna syni. Jonathan Michael Eddy er 30 ára og er að læra kírópraktík í Palmer College of Chiropractic. kyle Daniel Eddy er 25 ára og fetaði einnig í fótspor föður síns, en hann er tónlistarmaður, trommari og hefur farið í tónleikaferðalög um Bandaríkin, Evrópu og Japan.