Wiedza, umiejętności

Kírópraktík er orð sem á uppruna sinn úr grísku og þýðir það sem gert er með höndum, kíró þýðir hönd og praktík það sem stundað er. Þetta vísar til þess að starf kírópraktors er unnið með höndunum.

Uppbygging líkamans

Taugakerfið samanstendur af heilanum, mænunni og taugunum. Mænan er í raun framlenging af heilanum og taugarnar framlengja mænuna. Taugakerfið stjórnar flestum aðgerðum og frumum líkamans. Óhætt er að segja að almenn heilsa velti mikið á því að það geti starfað óhindrað. Höfuðkúpan hýsir og ver heilann. Hryggjarsúlan sem samanstendur af tuttugu og fjórum hreyfanlegum hryggjarliðum ver mænuna á sama hátt. Taugarnar koma svo út frá mænunni á milli hryggjarliðanna og greinast í óteljandi anga sem dreifast um allan líkamann. Heilinn er eins konar stjórnstöð sem sendir boð um mænuna, taugarnar og til líffæra og frumna líkamans um hvað gera skuli. Í því sambandi má nefna meltinguna, starfsemi hjartans, kirtlastarfsemina, aðlögun líkamans að innri og ytri aðstæðum og hreyfingu. Heilinn fær svo upplýsingar um stöðu mála sömu leið til baka og tekur ákvarðanir um skipanir til líffæranna byggðar á þessum upplýsingum. Það er því heilsu okkar óendanlega mikilvægt að boðin séu ótrufluð.

Hvers vegna að leita til kírópraktors?

Stundum verðum við fyrir hnjaski af einhverju tagi. Þá getur hryggjarliður misst stöðu sína, brjósk og liðbönd rifna og bólga og örvefur geta byggst upp í liðnum. Sé bólgan umtalsverð getur hún sett beina pressu á taugarnar á leið þeirra út frá mænunni á milli hryggjarliðanna. Pressa sem jafngildir þyngd smápenings getur nægt til þess að virkni taugar minnkar um 60%. Þetta veldur því að boðskiptin á milli stjórnstöðvarinnar (heilans) og frumna líkamans brenglast. Margir ímynda sér að þetta hljóti að vera ægilega sárt en sannleikurinn er sá að mögulegt er að hafa töluverða taugapressu án þess að upplifa nokkurn sársauka eða önnur einkenni. Líkaminn starfar þá ekki eins vel og hann gæti gert. Þetta kemur oft fram í greinilegri vanheilsu af einhverju tagi, stundum eru áhrifin minna greinileg.

Hverjir leita til kírópraktors?


Algengt er að fólk leiti til kírópraktora vegna verkja af ýmsu tagi, þó eru ástæðurnar margvíslegar. Ekki er nauðsynlegt að bíða þar til sársauki eða önnur einkenni koma upp. Alls konar fólk kemur, allt frá nýfæddum börnum til háaldraðra einstaklinga.

Starf kírópraktors

Kírópraktor hefur það starf að finna liðinn sem farið hefur úr skorðum, bólgnað og setur pressu á nærliggjandi taugar og hafa jákvæð áhrif á stöðu hans og hreyfigetu. Til þess notar kírópraktorinn hendurnar. Hann beitir nákvæmu, stuttu og oftast snöggu átaki til þess að færa liðinn til betri vegar. Liðurinn nýtir sér betri stöðu og hreyfingu til þess að losa uppsafnaða bólgu út úr liðnum og pressunni er létt af tauginni. Þannig endurheimtum við heilsu liðarins og þá getur taugakerfið haldið áfram að stjórna líkamanum á eðlilegan máta óáreitt, sem er takmarkið með starfi kírópraktorsins.


Þar sem sömu lögmál gilda um aðra liði líkamans er oft unnið með aðra liði sem orðið hafa fyrir hnjaski, svo sem kjálkaliði, axlarliði, olnboga, úlnliði, hné og ökkla.

Lengd meðhöndlunar


Algengt er að fólk komi ört í meðhöndlun fyrstu vikurnar. Hve oft og hve lengi er einstaklingbundið og veltur á mörgum þáttum. Ástandið á liðnum hefur áhrif, þ.e. hve bólginn hann er, mögulegar langtímaskemmdir og slit. Aldur fólks hefur áhrif og lífsstíll er mjög mikilvægur, hvíld, mataræði, regluleg hreyfing, beiting fólks við störf sín og margt fleira. Þegar liðurinn fer að ná stöðugleika fækkar endurkomum hratt. Best er svo að koma reglulega, hvort sem sársauki eða sjúkdómseinkenni gera vart við sig eða ekki. Ástæðan er sú að liður getur verið í vandræðum eða á leið í vandræði án þess að einstaklingurinn finni það. Það er því rökrétt að fylgjast vel með ástandinu á liðnum og laga hann áður en einkenni láta sjá sig, rétt eins og við gerum fyrir tennurnar okkar. Hryggjarsúlan og taugakerfið eiga það skilið.

Nám kírópraktora

Kírópraktík er þriðja stærsta heilbrigðisstétt í heimi. Nám kírópraktora í Bandaríkjunum telst vera fimm ára nám á háskólastigi. Sérstakar matsstofnanir sjá um að veita skólunum viðurkenningu og aðhald. Námið samanstendur af taugafræði, röntgenfræði, sjúkdómafræði, líffærafræði þar sem fram fara krufningar í heilt ár, efna og lífefnafræði, eðlis og lífeðlisfræði og fræðum þeim sem tengjast kírópraktíkinni sérstaklega og mörgu fleiru.
Námsmenn í kírópraktík í Bandaríkjunum útskrifast með gráðuna Doctor of Chiropractic, skammstafað D.C. Ásamt læknum og tannlæknum teljast kírópraktorar þar hafa menntun þeirra sem hæfir eru til þess að veita svokallaða frumstigsheilsugæslu, (primary health care), sem þýðir að hver sem er getur leitað til kírópraktors án tilvísunar frá lækni. Kírópraktorinn er fullfær um að ráðleggja það sem sem sjúklingnum er fyrir bestu og senda hann annað í rannsóknir eða meðhöndlun ef þörf er á.
Á Íslandi gefa Landlæknisembættið og Heilbrigðisráðuneytið út lækningaleyfi til kírópraktora sem hlotið hafa menntun sína í viðurkenndum skólum. Aðeins þeir sem hafa tilskylda menntun mega kalla sig kírópraktora