promienie rentgenowskie

Saga röntgentækninnar

Hinn þýski eðlisfræðiprófessor Wilhelm Conrad Röntgen uppgötvaði röntgengeislun fyrir tilviljun árið 1895. Hann hafði verið við tilraunir og rannsóknir á geislun ýmiss konar. Þegar hann sá hönd konu sinnar birtast á mynd eftir geislun gerði hann sér grein fyrir hinum miklu möguleikum tækninnar til þess að afla upplýsinga um sjúklinga af ýmsu tagi. Hann vann hörðum höndum að rannsóknum í tvo mánuði og birti svo niðurstöður sínar í tímariti eðlis og læknisfræðisamfélagsins í Wurzburg þann 28. desember 1895. Hann kallaði geislana “X” til merkis um að þeir væru af óþekktum uppruna. Þeir hafa verið kenndir við hann allar götur síðan og eru ýmist kallaðir X-geislar eða Röntgengeislar. Það veltur á því hvaða tungumál er talað. Hann veitti fyrstu Nóbelsverðlaununum móttöku fyrir uppgötvun sína árið 1901.

Eðli geislunar

Eðli geislunar er almennt tvenns konar: annars vegar geislun efniseinda og svo rafsegulgeislun. Í geislun efniseinda er um að ræða örsmáar eindir sem ferðast gífurlega hratt og eru eins og nafnið gefur til kynna efnislegar, þ.e. hafa massa, t.d. rafeindageislun. Rafsegulgeislun er hins vegar straumur ljóseinda sem ekki eru efnislegar, hafa ekki massa. Röntgengeislar eru í eðli sínu tegund af rafsegulgeislun. Til er margs konar rafsegulgeislun. Munurinn er fólginn í ólíkri tíðni geislunarinnar. Röntgengeislun ásamt geimgeislun er jónandi. Það þýðir að hún getur haft varanleg áhrif á lífverur. Það er því mikilvægt að notkun röntgengeisla sé ábyrg. Röntgentækni hefur fleygt fram á þeim rúmlega hundrað árum sem liðin eru frá uppgötvun Wilhelms Conrads Röntgens. Það kemur meðal annars fram í nákvæmari myndum og því að geislun sem sjúklingar verða fyrir í dag er í lágmarki.

Notkun röntgenrannsókna í kírópraktík

Kírópraktík hefur nýtt sér röntgenmyndir til upplýsingaöflunar í u.þ.b. hundrað ár, eða frá fyrstu árum röntgentækninnar. Rannsóknirnar eru af ýmsu tagi eftir því hvaða aðferðum er beitt við hina kírópraktísku meðhöndlun. Þær gefa einstaka innsýn inn í líkamann og veita kírópraktorum ómetanlegar upplýsingar um stoðkerfi sjúklingsins sem aðstoða hann við greininguna. Myndir eru teknar eftir að þörf hefur verið metin með töku nákvæmrar sjúkrasögu og skoðun sjúklings. Hafa þarf í huga að þar sem kírópraktorar nýta sér oft röntgenmyndir í öðrum tilgangi en aðrar heilbrigðisstéttir, eru myndirnar oft teknar á sértækan máta og með áherslu á aðra hluti. Kírópraktorar mynda oft stærri líkamssvæði úr meiri fjarlægð en aðrar stéttir gera, svo eitthvað sé nefnt. Það er vegna þess að þeirra rannsóknir hafa það að megintilgangi að skoða stoðkerfið í heild sinni og samspil mekanískra eininga innan þess. Áherslan er minni á að skoða alvarleg sjúkdómsferli í mjúkvefjum og annað sem krefst nákvæmrar upplausnar á litlu líkamssvæði.

Nám kírópraktora í röntgenfræðum er yfirgripsmikip og telur um 360 námsstundir. Þeir læra allt frá greiningu meina í beinum og mjúkvefjum, til tækni, öryggismála og kírópraktískrar greiningar. Kírópraktorar hafa menntun, þekkingu og reynslu til þess að eiga og reka röntgentæki, taka myndirnar og nýta til greiningar. Réttur þessi er lögvarinn.

Meginástæður þess að kírópraktorar nýta sér röntgenrannsóknir til upplýsinga:

  • Röntgenmynd veitir skýra mynd af stoðkerfinu.
  • Gefur nákvæma talningu á hryggjarliðum.
  • Veita upplýsingar um stöðu liða og þar með hvernig best er að hnika liðum til, stystu leið í átt að upprunalegri stöðu, á eins nákvæman máta og mögulegt er.
  • Veita upplýsingar um almennt heilbrigði liða, mögulegt slit, fæðingargalla, gigt, frávik frá góðri þyngdardreifingu, hugsanleg beinbrot og annað hnjask á bein.
  • Hjálpa til við að útiloka krabbamein og fleiri möguleg alvarleg sjúkdómsferli.

Röntgenrannsóknir eru hættulítil leið til þess að öðlast mikilvægar upplýsingar um heilsu fólks.

Kírópraktorar sem vinna eftir Gonstead aðferðinni taka svokallaðar “full spine” myndir. Tvær myndir eru teknar: hliðarmynd og mynd þar sem horft er aftan á hryggjarsúluna. Tvennt er sérstakt við myndatöku af þessu tagi: Öll hryggjarsúlan sést á hvorri filmu og sjúklingurinn stendur með ákveðið bil á milli fótanna og stoðkerfið er í álagsstöðu. Stoðkerfið hefur tvö megin hlutverk: annað er að hýsa taugakerfið. Hitt er að bera þunga líkamans. Þetta er lykilatriði. Með því að mynda stoðkerfið í álagsstöðu fást upplýsingar sem nýtast kírópraktornum sérstaklega vel, og geta annars tapast, sé sjúklingurinn myndaður liggjandi.